Viti ráðgjöf

View Original

Þunginn í vagninum

Í síðustu grein minni velti ég því upp hvort það mætti verja meiri tíma í að ráðast á rót vandans, í stað þess að vera sífellt að endurtaka sig í slönguspili vinnustaðarins. Hér held ég áfram með þessar vangaveltur með áherslu á það hvar togstreita vinnustaðarins leynist í raun.

Segja má að vinnustaður sé eins og vagn. Vagninn á að fara í ákveðna átt og best væri ef allir starfsmenn stæðu fyrir aftan vagninn og ýttu honum í rétta átt. Þetta er aftur á móti sjaldséð. Oft finnst starfsmönnum þeir einir vera að ýta vagninum áfram á meðan aðrir virðast ýta vagninum í gagnstæða átt. Hin klassíska togstreita hefur myndast.

Þessi togstreita hefur orðið viðfangsefni margra fræðimanna. Kurt Lewin (1943) túlkaði hana á einfaldan hátt. Hann gerði það með tveimur örvum. Önnur þeirra benti áfram, sem táknaði krafta með breytingum. Hin snéri í gagnstæða átt, og táknaði krafta á móti breytingum.

Kurt benti á að núverandi staða, status quo, sé afleiðing þess jafnvægis sem hefur myndast á milli þessara tveggja krafta. Vilji vinnustaður komast áfram þarf að auka krafta með breytingum og eða brjóta niður krafta sem vinna gegn breytingum. Þannig leggur Kurt til að gera sér grein fyrir umhverfinu og brjóta niður hindranir sem eru fyrirséðar áður en lagt er af stað í breytingar og umbætur.

Þessi einföldu ráð Kurt hafa nýst mörgum við umbætur á sínum vinnustað. Mig langar þó að velta því upp hvort myndin mætti vera ögn ítarlegri, með tveimur kröftum til viðbótar. Til að útskýra þær vangaveltur er hjálplegt að horfa aftur til vagnsins.

Vandamálið með vagninn er nefnilega ekki bara af því að það eru svo margir að ýta á móti, heldur er það hversu margir hafa komið sé fyrir í vagninum. Sá þungi er gjarnan rótgróinn vandi innan vinnustaðarins og hefur sá kraftur afgerandi áhrif á framvindu umbóta og breytinga.

Að setjast í vagnin er alla jafna ekki meðvituð ákvörðun. Það gerist hægt og bítandi, þar sem það myndast doði eða jafnvel uppgjöf fyrir starfinu og vinnustaðnum. Fyrir vikið verður viðhorf og frammistaða ekki eins og áður var. Starfsmenn í vagninumfara að finna fyrir öryggi og þægindum í vagninum og veran þar verður að ávana, að hegðun sem erfitt er að brjótast út úr.

Þó að einstaklingar séu ómeðvitaðir um að þeir séu í vagninum eru líkur á að þeir passi upp á sætið sitt. Viss varnarhegðun getur birst, viðhorf orðið á tíðum þröngsýn og ákvarðanataka gjarnan lituð af ótta við að missa sætið.

Alvarlegast er ef stjórnandi er orðinn farþegi í vagninum þar sem áhrif slíks stjórnanda geta verið umtalsverð. Þannig eru t.a.m. stórauknar líkur á því að undirmenn viðkomandi fari sjálfkrafa í vagninn, sé stjórnandinn þar þegar.

Þungi vinnustaðarins er djúpstæður kraftursem nauðsynlegt er að mæta, með enn sterkari krafti. Ég legg til að það sé hægt með fjórum mismunandi leiðum. A. Að átta sig á því hvað er að valda því að starfsmenn fara í vagninn og fyrirbyggja slíkan þunga í umhverfinu. B. Að skapa drífandi umhverfi sem stuðlar að því að starfsmenn finni sig knúna til þess að ýta vagninum, öllum stundum. C. Að hjálpa starfsmönnum úr vagninum með nálgun sem er blanda af hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum. D. Og ef allt þrýtur, að segja upp þessum aðilum til að létta á vagninum.

Ég mun dýpka þessar vangaveltur með frekari greinum á nokkurra vikna fresti og mun sú næsta fjalla um ávana, hegðun og heilann. En slíkar vangaveltur eru mér hugleiknar og veita vonandi betri skilningi á því af hverju starfsfólk á það til að festast í vagninum.