Hvað með stjórnendateymið?

Í umfjöllun um rekstur fyrirtækja er gjarnan rík áhersla á stjórnandann og leiðtogann. Umfjöllunin er gjarnan í eintölu þar sem stjórnandanum er ýmist hampað sérstaklega fyrir góðan árangur eða gagnrýndur fyrir mistök. Í fræðibókum, námskeiðum og stjórnendaþjálfun er að sama skapi rík áhersla lögð á þennan einstakling, enda hefur stjórnandinn umtalsverð áhrif á árangur í rekstri.

Raunverulegur árangur í rekstri næst aftur á móti gjarnan með öflugu teymi stjórnenda, sem vinnur samstillt í átt að sameiginlegu markmiði. Stjórnendateymið gegnir því óumdeildu lykilhlutverki sem, þrátt fyrir allt, virðist of sjaldan fá þá athygli sem því ber.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að stjórnendahópur og stjórnendateymi er ekki það sama. Hópur verður sjálfkrafa til þegar einstaklingar koma saman en teymi er meira en það. Teymi verður til þegar meðvitað eru útilokaðar neikvæðar afleiðingar hópamyndunar og um leið unnið markvisst og ötullega að því að draga fram kosti þess að starfa saman í teymi.

Þannig nýtir gott stjórnendateymi sér styrkleika mismunandi einstaklinga, veit hvert það er að fara og hvaða leið verður valin. Það hefur skilgreind hlutverk fyrir alla, styðst við skipulögð og opin samskipti, endurnýjar þekkingu sína og færni, hefur sameiginlega stefnu og markmið, metur árangur jafnóðum og tileinkar sér stjórnunartakt sem tryggir samfellu í öllum störfum.

Mikilvægt er fyrir stjórnendur að doka við, vera vakandi fyrir stöðu stjórnendateymisins og vinna ötullega að því að hámarka árangur þess. Stóra spurningin fyrir alla stjórnendur er því þessi: Ert þú í hóp eða teymi?

Previous
Previous

Slönguspilið á vinnustaðnum