Slönguspilið á vinnustaðnum

Margir hafa staðið að umbótum eða breytingum á vinnustað sínum. Umbæturnar gætu hafa verið ósköp einfaldar yfir í að vera flóknar og umfangsmiklar. Hvert sem flækjustigið hefur verið hafa flestir reynslu af því að ná ekki þeim árangri sem stefnt var að. Það ætti ekki að koma á óvart enda gefa rannsóknir til kynna að 70% allra breytingarverkefna misheppnast.

Af þessari ástæðu fer viss hópur fólks, umbótarsinnarnir, að efla sig, til að verða betri í að ná árangri. Fara að lesa bækur, sækja námskeið, prófa nýjar leiðir, fá betri skilning og ráðast aftur til atlögu. Stundum gengur vel en stundum lendir fólk aftur á vegg.

Hver sem útkoman verður eiga nánast allar umbótartilraunir eitt sameiginlegt, að víða leynast hindranir. Sumar eru löngu fyrirséðar á meðan aðrar skjóta upp kollinum á ótrúlegustu stundum. En áfram heldur þrautabrautin, umbótarsinnar halda áfram á vegferð sinni og mæta jafnvel sömu hindrunum aftur og aftur.

Að mörgu leyti má líkja þessari þrautabraut við slönguspilið vinsæla, sem allir þekkja úr æsku. Þar sem leikmenn keppast við að sleppa við að lenda á slöngum og lenda þess í stað á sem flestum tröppum. Árangur leikmanna er þannig með öllu háður lukku kastarans þar sem ófyrirséð er hvort það leynist slanga í næstu hreyfingu.

Sjálfur hef ég tekið þátt í að spila slönguspilið á mörgum vinnustöðum, sem starfsmaður, stjórnandi og stjórnunarráðgjafi. En ég hef öllum stundum spurt mig, væri ekki réttara að breyta spilinu? Brjóta niður hindranirnar, ráðast á rætur vandans, fækka slöngunum og fjölga tröppunum? Verja frekar tíma í umbreytingu á vinnustaðnum, en ekki sífelldum breytingarverkefnum sem ná sjaldan árangri? Þannig að slönguspilið á vinnustaðnum yrði á endanum aðeins skemmtilegra?

Of oft upplifi ég það að vinnustaðir eru ekki tilbúnir að leggja í slíka vegferð. Ein hugsanleg ástæða fyrir slíkum trega er einfaldlega af því að stjórnendur og starfsfólk sjá ekki vandann. Þau átta sig ekki á því að slönguspilið geti verið öðruvísi og átta sig enn síður á því hvaða hlutverki þau gegna í að skapa og viðhalda þessu spili. Eigi umbreyting að eiga sér stað er nauðsynlegt að opna augun fyrir veruleikanum, gera sér grein fyrir eigin hlutverki og hefja umbætur hjá sjálfum sér.

Hér má sérstaklega beina sjónum að hegðunum, ávönum og samskiptamynstrum á vinnustaðnum, þar sem ósjaldan er horft framhjá þessum áhrifamiklu en ósýnilegu hindrunum. Að gera sér grein fyrir þeim veruleika, viðurkenna hann og ákveða að vinna að umbótum á honum getur reynst framfararskref á öllum vinnustöðum. Verkfærin til að vinna að slíkri vegferð eru fjölmörg, og all flest hefðbundin, en þegar þau eru hönnuð markvisst til þess að ráðast á raunverulega rót vandans er árangurinn vís.

Þessar vangaveltur, að einblína á atferli í umbótum, er mér mikið hugðarefni og lít ég gjarnan á vinnustaði frá öðrum sjónarhóli en aðrir. Þessi sjónarhóll hefur þróast í hugmyndafræði sem ég hef beitt í starfi og ég vil deila í stuttum pistlum. Á nokkurra vikna fresti munu birtast vangaveltur frá mér um hvernig hægt er að skilja stöðuna og nýta þann skilning til að vinna að varanlegri umbreytingu. Næsti pistill mun segja frá Vagninum, en hann er undirstaða þessarar hugmyndarfræði minnar.

Previous
Previous

Þunginn í vagninum

Next
Next

Hvað með stjórnendateymið?