Hugrökku leiðtogarnir og lömunarveiki ríkisins
Lengi hefur verið ljóst að tilvera stjórnenda hjá ríki og sveitarfélagi er þyrnum stráð. Lamandi lögmál starfsmannamála og fjárheimilda ríkisins skapa aðstæður sem mætti líkja við sund með lóðum. Þrátt fyrir það eru fjölmargir stjórnendur í ríkisrekstri sem láta það ekki stoppa sig og keyra áfram af hugrekki. Ekkert sem kemur fram hér að neðan er í nýtt – en af hverju er staðan óbreytt?
Hafandi starfað með mörgum stjórnendum, í einkarekstri og ríkisrekstri, blasir þessi munur á milli vinnustaða oft við. Vegur stjórnanda í ríkisrekstri er vandrataður þar sem umhverfið nánast vill ekki að hann taki stórar ákvarðanir. Þannig virðist sem margir stjórnendur skýli sér á bakvið starfsmannalögin og að þeim farnist best sem hafa sig hæga og breyta sem minnstu.
Þannig eru ráðningar t.a.m. bundnar við fast form enda er stjórnandinn vís til að gerast brotlegur ef hann fylgir ekki stífu handriti skref fyrir skref, þó enginn vilji sé til brota. Lítil smáatriði, eins og að tilgreina að laun séu í samræmi við kjarasamninga í atvinnuauglýsingum eru varla góð byrjun enda dregur það úr líkunum á að öflugasta fólkið sýni starfinu yfir höfuð áhuga.
Uppsagnir eru þeim mun erfiðari þar sem starfsfólki finnst þau jafnvel hafa öðlast eignarrétt á stöðu sinni og starfi til æviloka. Stafsmannalögin gera þannig stjórnendur jafnvel ómögulegt að leggja niður stöður og þeir sem það reyna geta nánast treyst á að málið fari fyrir dómstóla, og ljúki starfsmanni í vil. Það er gjaldið sem þarf að greiða til að svara niðurskurðarkröfum eða út af vanhæfni starfsmanns. Erfitt er að skilja hver er réttlætingin fyrir þessum mikla rétti ríkisstarfsmanna á okkar tímum, sérstaklega í ljósi þess að launaliðurinn er stærsti útgjaldaliður ríkisins.
Loks eru fjárheimildir einstakar út af fyrir sig. Stofnun er úthlutað fé sem á að endast út árið og alls ekki lengur. Að sama skapi er deildum og sviðum úthlutað sínu fjármagni á viðkomandi viðfang og næsti niðurskurður er alltaf yfirvofandi. Allt þetta hvetur stjórnandann til þess að sitja um fjármagn sitt eins og landamæravörður á Covid tímum. Þannig er hver og einn stjórnandi vís til þess að hugsa eingöngu um eigin hag, á sinni deild, sviði eða stofnun þannig að hin fræga sílómyndun ríkisins skapast. Þá eru fjárheimildir oft eini mælikvarðinn á árangur í starfi enda engar sölutölur til staðar og of sjaldan teknir saman góðir mælikvarðar um árangur.
Hér eru bara nefndar þrjár breytur sem geta haft takmarkandi, jafnvel lamandi, áhrif á stjórnendur ríkisstofnanna. Þessi lömun er víðtæk og hana hef ég séð víða í gegnum árin – svo mikið að ég hef oft tjáð mig um það. Því er ekkert nýtt að koma fram hér – annað en það að staðan hefur ekkert breyst. Lengi framan af var ég að vonast til þess að umhverfið breyttist en það er óskhyggja.
Það sem hefur aftur á móti vakið athygli mína og ánægju eru hugrökku leiðtogarnir. Þau sem láta hömlur lömunarveikinnar ekki á sig fá, láta hindranirnar ekki halda aftur af sér og eru skapandi og drífandi í sinni nálgun. Þau vita hvað skiptir máli og hafa skýra sýn í átt að árangri, skapa skemmtilegt og drífandi starfsumhverfi sem leggur grunn að árangri.
Þetta eru þeir stjórnendur sem eru að fara best með fjármuni ríkisins og ég er lánsamur að hafa fengið að starfa með þeim sem ráðgjafi. Þessum stjórnendum má fjölga, umhverfið má breytast en mikilvægast er að fagna þessu hugrökkum leiðtogum sem ákveða að taka slaginn – í almannahag. Það þarf nefnilega ekki að breyta kerfinu, það þarf bara hugrekki.
Birt í Fréttablaðinu 4. ágúst 2021