Hug­rökku leið­togarnir og lömunar­veiki ríkisins

Lengi hefur verið ljóst að til­vera stjórn­enda hjá ríki og sveitar­fé­lagi er þyrnum stráð. Lamandi lög­mál starfs­manna­mála og fjár­heimilda ríkisins skapa að­stæður sem mætti líkja við sund með lóðum. Þrátt fyrir það eru fjöl­margir stjórn­endur í ríkis­rekstri sem láta það ekki stoppa sig og keyra á­fram af hug­rekki. Ekkert sem kemur fram hér að neðan er í nýtt – en af hverju er staðan ó­breytt?

Hafandi starfað með mörgum stjórn­endum, í einka­rekstri og ríkis­rekstri, blasir þessi munur á milli vinnu­staða oft við. Vegur stjórnanda í ríkis­rekstri er vand­rataður þar sem um­hverfið nánast vill ekki að hann taki stórar á­kvarðanir. Þannig virðist sem margir stjórn­endur skýli sér á bak­við starfs­manna­lögin og að þeim farnist best sem hafa sig hæga og breyta sem minnstu.
Þannig eru ráðningar t.a.m. bundnar við fast form enda er stjórnandinn vís til að gerast brot­legur ef hann fylgir ekki stífu hand­riti skref fyrir skref, þó enginn vilji sé til brota. Lítil smá­at­riði, eins og að til­greina að laun séu í sam­ræmi við kjara­samninga í at­vinnu­aug­lýsingum eru varla góð byrjun enda dregur það úr líkunum á að öflugasta fólkið sýni starfinu yfir höfuð á­huga.

Upp­sagnir eru þeim mun erfiðari þar sem starfs­fólki finnst þau jafn­vel hafa öðlast eignar­rétt á stöðu sinni og starfi til ævi­loka. Stafs­manna­lögin gera þannig stjórn­endur jafn­vel ó­mögu­legt að leggja niður stöður og þeir sem það reyna geta nánast treyst á að málið fari fyrir dóm­stóla, og ljúki starfs­manni í vil. Það er gjaldið sem þarf að greiða til að svara niður­skurðar­kröfum eða út af van­hæfni starfs­manns. Erfitt er að skilja hver er rétt­lætingin fyrir þessum mikla rétti ríkis­starfs­manna á okkar tímum, sér­stak­lega í ljósi þess að launa­liðurinn er stærsti út­gjalda­liður ríkisins.

Loks eru fjár­heimildir ein­stakar út af fyrir sig. Stofnun er út­hlutað fé sem á að endast út árið og alls ekki lengur. Að sama skapi er deildum og sviðum út­hlutað sínu fjár­magni á við­komandi við­fang og næsti niður­skurður er alltaf yfir­vofandi. Allt þetta hvetur stjórnandann til þess að sitja um fjár­magn sitt eins og landa­mæra­vörður á Co­vid tímum. Þannig er hver og einn stjórnandi vís til þess að hugsa ein­göngu um eigin hag, á sinni deild, sviði eða stofnun þannig að hin fræga síló­myndun ríkisins skapast. Þá eru fjár­heimildir oft eini mæli­kvarðinn á árangur í starfi enda engar sölu­tölur til staðar og of sjaldan teknir saman góðir mæli­kvarðar um árangur.

Hér eru bara nefndar þrjár breytur sem geta haft tak­markandi, jafn­vel lamandi, á­hrif á stjórn­endur ríkis­stofnanna. Þessi lömun er víð­tæk og hana hef ég séð víða í gegnum árin – svo mikið að ég hef oft tjáð mig um það. Því er ekkert nýtt að koma fram hér – annað en það að staðan hefur ekkert breyst. Lengi framan af var ég að vonast til þess að um­hverfið breyttist en það er ósk­hyggja.

Það sem hefur aftur á móti vakið at­hygli mína og á­nægju eru hug­rökku leið­togarnir. Þau sem láta hömlur lömunar­veikinnar ekki á sig fá, láta hindranirnar ekki halda aftur af sér og eru skapandi og drífandi í sinni nálgun. Þau vita hvað skiptir máli og hafa skýra sýn í átt að árangri, skapa skemmti­legt og drífandi starfs­um­hverfi sem leggur grunn að árangri.

Þetta eru þeir stjórn­endur sem eru að fara best með fjár­muni ríkisins og ég er lán­samur að hafa fengið að starfa með þeim sem ráð­gjafi. Þessum stjórn­endum má fjölga, um­hverfið má breytast en mikil­vægast er að fagna þessu hug­rökkum leið­togum sem á­kveða að taka slaginn – í al­manna­hag. Það þarf nefni­lega ekki að breyta kerfinu, það þarf bara hug­rekki.



Birt í Fréttablaðinu 4. ágúst 2021

Previous
Previous

Fíla­beins­turninn og Land­spítali

Next
Next

Blandaði vinnustaðurinn sem Covid gaf okkur